Gömlu grasalæknarnir sem ég hef kynnst, nota alla tilveruna til þess að skilja og þekkja jurtir og fólk. Þeir taka manneskjuna inn í myndina og meira en það. Í gömlu jurtafræðunum sem stunduð hafa verið um allan heim eru jurtir, fólk, stjörnur, frumöfl og táknmyndir, allt saman meðleikarar í því að skapa jafnvægi og samhljóm.
Grasalæknar þessa fræða nota semsagt skynfærin og innsæið til þess að eiga samskipti við jurtirnar og búa til öflugt meðal sem getur virkað, ekki bara á einkenni fólks heldur á tilfinningalífið og sálina líka. Þeir hafa lært af aldagamalli þekkingu sem hefur verið varðveitt í árþúsundir.
Ég get með sanni sagt að það hefur hjálpað mér mikið að draga þekkingu úr vísindalegu hlið jurta, í bland við gömlu spekina. Að skilja hvernig jurtir virka í efnafræðilegu samhengi er hjálplegt, en það er mun grynnri þekking sem kemur okkur ekki mjög langt ein og sér.
Ég hef lengi velt því fyrir mér, hvernig ég vilji miðla minni þekkingu til þeirra sem vilja læra af mér. Það er þessi heildræna sýn og skilningur sem ég hef áhuga á að koma á framfæri, til þeirra ykkar sem hafa áhuga á því. Auk þess, ef fólk sækist eftir því að vita einfaldlega “hvað hver jurt gerir”, eru til ótal bóka þar sem hægt er að fletta því upp.